Posinn snýr að þér - leggðu pinnið á minnið

Verkefnið Pinnið á minnið er verkefni um notkun greiðslukorta með örgjörva á Íslandi. Posinn snýr þá að korthafanum sem staðfestir greiðsluna með pinni í stað undirskriftar, líkt og víða erlendis.

Ávinningur af breytingunni er aukið öryggi fyrir korthafa og fyrirtæki sem taka við kortagreiðslum. Með þessari breytingu mæta íslenskir markaðsaðilar kröfum alþjóðlegu kortafyrirtækjanna um öryggisráðstafanir sem innleiddar eru um allan heim til að sporna við fjársvikum skipulagðra glæpasamtaka.

Verkefnið er í umsjá Greiðsluveitunnar ehf, dótturfyrirtækis Seðlabanka Íslands, og unnið samkvæmt heimild og skilyrðum Samkeppniseftirlitsins samanber ákvörðun 18/2010.

Færsluhirðarnir Borgun, Valitor og Kortaþjónustan taka virkan þátt í verkefninu.

Nánari upplýsingar veita:

Sigurður Hjalti Kristjánsson
verkefnisstjóri frá Capacent
sigurdur.kristjansson@capacent.is

 

Guðmundur Kr. Hallgrímsson
Greiðsluveitunni
gudmundur@greidsluveitan.is

 

 • 17. December 2014

  19. janúar 2015: Ekkert pinn, engin heimild

  Á sölustöðum hérlendis snýr posinn nú að viðskiptavinum sem staðfesta kortagreiðslur með pinni í stað undirskriftar. Korthafar sem muna ekki pinnið hafa hingað til getað staðfest greiðslur með því að ýta á græna takkann á posanum.

  Þann 19. janúar 2015 hefja útgefendur greiðslukorta afnám þessarar undanþágu.  Korthafar þurfa þá að staðfesta með pinni eða eiga á hættu að ekki fáist heimild fyrir viðskiptum. Ef kort er án örgjörva skrifar korthafi áfram undir greiðslukvittun.

  Til  að forðast óþægindi skiptir miklu að korthafar leggi pinnið á minnið fyrir þennan tíma hafi þeir ekki gert það nú þegar. Hægt er að nálgast pinnið í netbönkum, öppum eða hjá þeim banka, sparisjóði eða kortafyrirtæki sem gefur út kortið.

  Korthafar sem ekki geta notað pinnið vegna fötlunar eða af heilsufarsástæðum eru hvattir til að ræða við útgefanda kortsins, banka eða sparisjóð. Útgefendur greiðslukorta eiga sértækar lausnir sem kunna að gagnast þeim korthöfum.

  Á sölustöðum þarf að tryggja aðgengi korthafa að posunum til að þeir geti staðfest greiðslur með pinni.

  Continue reading →

 • 4. February 2013

  Aðgengi fatlaðra að posum

  Fyrirtæki sem taka við kortagreiðslum verða nú að setja upp örgjörvaposa sem snúa að viðskiptavinum. Mikilvægt er að hugað sé vel að aðgengi fatlaðra korthafa að posum. Í meðfylgjandi grein Hörpu Ingólfsdóttur ferlifræðings hjá Aðgengi, sem unnin er í samvinnu við Öryrkjabandalagið, er að finna leiðbeiningar um hvernig aðgengi fatlaðra verður best tryggt.

  Aðgengi_fyrir_alla_að_posum

  Continue reading →

 • 18. December 2012

  Greiðslukortaviðskipti eftir 1. nóvember 2012

  Þann 1. nóvember 2012 áttu fyrirtæki sem taka við kortagreiðslum að hafa sett upp örgjörvaposa er snúa að viðskiptavinum.  Nú eru um 70% afgreiðslustaða posa komnir með örgjörvaposa og á næstu vikum og mánuðum verða örgjörvaposar teknir í notkun á þeim afgreiðslustöðum sem eftir eru.

  Rétt aðferð við notkun örgjörvaposa er eftirfarandi:

  • Posinn snýr að viðskiptavinum

   • Viðskiptavinir geta sjálfir sett kortið í posann

  • Viðskiptavinir staðfesta kortagreiðslur með pinni í stað undirskriftar

  Þeir sem eru með gömul kort með segulrönd fá örgjörvakort næst þegar kortið er endurnýjað. Þangað til er að sjálfsögðu hægt að nota gamla kortið áfram.  Sama á við um erlend kort sem einungis eru með segulrönd. Ef kortið er án örgjörva tekur starfsfólk við kortinu, rennir segulrönd og ber saman undirskrift á korti og kvittun.

  Ef viðskiptavinur með örgjörvakort man ekki pinnið  er ennþá  heimilt að ýta á græna takkann og leyfa viðskiptavini að staðfesta greiðslu með undirskrift. Örgjörva kortins ber þó ávallt að lesa.

  Mikilvægt er að stjórnendur fyrirtækja sem taka við kortagreiðslum komi þessum upplýsingum áleiðis og þjálfi sitt starfsfólk í réttri aðferð

  Continue reading →

 • 2. November 2012

  Breytingar í kortaviðskiptum og fatlaðir korthafar

  Fjölmiðlar hafa að undanförnu fjallað um hvernig breytingar í kortaviðskiptum snúa að fötluðum. Af því tilefni er eftirfarandi tekið fram:

  Vitað er að tilteknir hópar korthafa geta átt erfitt með að komast að posa á sölustað til að staðfesta kortagreiðslu og aðrir að muna eða slá inn pinnið sökum fötlunar eða af heilsufarsástæðum. Verkefnisstjórn Pinnið á minnið hefur átt í góðum samskiptum við Öryrkjabandalagið vegna þessara mála á undanförnum mánuðum og unnið úr þeim ábendingum sem þaðan hafa komið.

  Útgefendur greiðslukorta munu á næstunni kynna sínar lausnir sem henta þessum hópum korthafa sérstaklega.

  Enn um sinn er leyfilegt að staðfesta greiðslur með undirskrift þó svo að örgjörvi kortsins sé lesinn. Þegar fram í sækir verður almenna reglan sú að greiðslur með örgjörvakortum verða staðfestar með pinni og mun sú breyting verða kynnt rækilega þegar þar að kemur.

  Á vegum verkefnisins Pinnið á minnið hefur verið brýnt fyrir stjórnendum fyrirtækja að uppfylla kröfur um aðgengi fyrir fatlaða á sölustað.

  Hvað blinda og sjónskerta varðar þá uppfylla örgjörvaposar sem eru í notkun hérlendis alþjóðlega staðla og er talnaborð þeirra sambærilegt. Þannig er miðjuhnappurinn (talan 5) með upphleyptu merki til aðgreiningar og hnappar til að hafna eða staðfesta einnig með upphleyptum merkjum.

  Rétt er að árétta eftirfarandi: Það er mikilvægt að korthafar láti pinnið sitt aldrei öðrum í té og geri það ekki aðgengilegt. Besta leiðin fyrir korthafa er að leggja pinnið á minnið og eiga það hvergi skráð í fórum sínum, og allra síst með greiðslukortinu. Ef korthafar geta af einhverjum ástæðum ekki lagt pinnið á minnið eru þeir hvattir til að hafa samband við sinn útgefanda, banka eða sparisjóð, og leita lausna.

   

  Continue reading →

 • 30. October 2012

  Algengar spurningar sem afgreiðslufólk fær

  Hvenær þarf ég að vera komin með örgjörvaposa?

  Langflestir afgreiðslustaðir hafa tekið í notkun örgjörvaposa sem snúa að viðskiptavinum. Fyrirtæki sem lesa segulröndina beint í afgreiðslukerfi eða nota gamla posa þurfa að uppfæra sinn búnað í samstarfi við sinn færsluhirði eða þjónustuaðila.  

  Hvað gerist 1. nóvember 2012?

  Þá verður mikill meirihluti þeirra fyrirtækja sem tekur við kortagreiðslum búinn að setja upp örgjörvaposa sem snýr að viðskiptavinum. Þennan dag er ekki fyrirhuguð nein breyting á virkni korta. 

  Hvað með gömul kort sem hafa ekki örgjörva?

  Segulröndin er áfram lesin á eldri kortum án örgjörva. Íslensk kreditkort eru með örgjörva og þegar skipt er um debetkort fá korthafar ný kort með örgjörva. Yfir 90% allra íslenskra greiðslukorta í noktun eru með örgjörva. Hluti erlendra ferðamanna verður áfram með kort án örgjörva, allavega næstu árin. 

  Tapa ég sölu ef fólk man ekki pinnið?

  Það er enn leyfilegt að ýta á græna takkann ef viðskiptavinur man ekki pinnið sitt. Örgjörvinn á kortinu er hins vegar ávallt lesinn.

  Hvenær verður lokað fyrir að ýta á græna takkann?

  Þessi aðferð verður leyfileg á meðan korthafar leggja pinnið á minnið. Þegar þessi aðferð verður ekki lengur leyfileg þurfa korthafar að staðfesta kortagreiðslu á örgjörvakort með pinninu. Sú breyting verður kynnt rækilega þegar þar að kemur og með góðum fyrirvara. Það mun ekki fara fram hjá neinum. Það er útgefandi kortsins, banki eða sparisjóður, sem ákveður hvenær þessa aðferð er heimiluð.

  Continue reading →

 • 30. October 2012

  Vel heppnuð innleiðing örgjörvaposa hjá 10-11

  „10-11 var eitt þeirra fyrirtækja sem fagnaði umræðunni um staðfestingu greiðslna með pinni, þegar hún fór af stað,“ segir Árni Pétur Jónsson forstjóri 10-11.  „Okkar skoðun er sú að notkun pinns eykur öryggi við meðhöndlun kortaupplýsinga og því mikið hagsmunamál korthafanna. Rétt notkun örgjörvakorta og örgjörvaposa er stórt skref í að uppfylla öryggisreglur um meðferð kortaupplýsinga.”  Aðspurður segir Árni Pétur að 10-11 hafi strax sumarið 2011 ákveðið að innleiða kerfið í verslanir sínar. „Fyrsta verslunin okkar til að taka upp staðfestingu greiðslna með pinni var verslunin Inspired By Iceland sem staðsett er í Flugstöð Leifs Eiríksssonar.  Þar er mikið um erlenda viðskiptavini sem þekkja þetta fyrirkomulag.  Innleiðingin þar gekk vel fyrir sig og fá vandamál komu upp.   Eftir nokkurn reynslutíma  í Inspired By Iceland var ákveðið að ganga alla leið  og innleiða kerfið  í allar 23 verslanir 10-11.  Sú innleiðing gekk hratt og örugglega fyrir sig og í byrjun júní 2012 voru allar verslanir 10-11 komnar með örgjörvaposa  og hættar að nota fyrra kortakerfi.  “Almennt má segja að viðskiptavinir okkar hafi tekið breytingunni vel og sýnt henni mikinn skilning þótt einhverjir hafi ekki verið undir hana búnir,” segir Árni Pétur.   „Frá innleiðingu kerfisins í byrjun júní hafa farið rúmlega 2 milljónir afgreiðslna í gegnum verslanir 10-11 og lang stærsti hluti þeirra eru kortaafgreiðslur.  Það er því óhætt að segja að búið sé að reyna vel á kerfið og hefur það staðist álagið.  Ef hægt er að tala um einhverjar brekkur í þessu máli þá er það helst að fólk man ekki pinnið sitt en sá hópur fer minnkandi.  Í dag er þetta eðlilegur hluti af því að versla í 10-11.  Við innleiðingu á örgjörvaposum opnuðust  síðan ýmsir möguleikar sem ekki voru til staðar í gamla kerfinu.  Við hjá 10-11 höfum verið að vinna með þá og náð að búa til skemmtilega og spennandi  nýbreytni í verslunum okkar,”  segir Árni Pétur.

  Continue reading →

 • 9. June 2011

  Pinnið í fjölmiðlum

  Mikil umfjöllun var um Pinnið í kjölfar blaðamannafundar í Heiðrúnu á miðvikudagsmorgni 8. júní.

  Hér eru tenglar á helstu fréttir sem hafa birst um Pinnið á minnið

  Pinnið í hádegisfréttum á RÚV – 8. júní.

   

  Pinnið í hádegisfréttum á Bylgjunni – 8. júní.

   

  Viðtal við verkefnisstjórann í Reykjavík síðdegis á Bylgjunni – Athugið – viðtalið hefst þegar 48 mínútur eru liðnar af þættinum. Smellið á stikuna og finnið þá mínútu til að fara beint í viðtalið.

  Pinnið í kvöldfréttum Sjónvarps – 8. júní.

   

  Pinnið í kvöldfréttum á Stöð 2 – 8. júní.

  Continue reading →

 • 9. June 2011

  Pinnið á minnið – verkefni hleypt af stokkunum

  Íslendingar staðfesta kortafærslur framvegis með pinni í stað undirskriftar

  Á blaðamannafundi í Heiðrúnu, vínbúðinni í Árbænum, var Pinnið á minnið formlega sett í gang. Sigurður Hjalti Kristjánsson, verkefnisstjóri, staðfesti viðskipti með pinni í stað undirskriftar. Fréttatilkynning var send á alla fjölmiðla í kjölfar fundarins og umfjöllun um verkefnið hefur verið áberandi.

  Úr fréttatilkynningu:

  Brátt munu íslenskir korthafar fara að staðfesta greiðslur með pinni (PIN-númeri) í stað undirskriftar, líkt og þekkist víða erlendis. Íslensk fyrirtæki sem taka við kortagreiðslum þurfa því að setja upp örgjörvaposa sem snýr að viðskiptavinum. Í stað þess að afhenda greiðslukortið setur viðskiptavinurinn það sjálfur í posann og slær inn pinnið sitt til að staðfesta viðskiptin.

  Með þessum breytingum mæta Íslendingar alþjóðlegum kröfum en örgjörvakort og pinni gera kortaviðskipti öruggari, bæði fyrir korthafa og fyrirtæki. Erfitt er að misnota stolið kort á sölustað sem krefst þess að viðskipti séu staðfest með pinni, hafi korthafinn varðveitt pinnið sitt með öruggum hætti.

  Vínbúðir stíga fyrstu skrefin

  Verslanir og þjónustufyrirtæki eru byrjuð að setja upp posa sem snúa að viðskiptavinum til þess að mæta þessum kröfum. Í völdum Vínbúðum geta korthafar nú þegar staðfest viðskipti með pinni í stað undirskriftar, því þar er posi sem tekur við örgjörvakortum og snýr að viðskiptavinum.

  Enn um sinn munu korthafar eiga þess kost að staðfesta greiðslur á gamla mátann með undirskrift en nýjum posum mun þó fjölga hratt í verslunum landsins. Framvegis verða allir korthafar að leggja pinnið á minnið, því á næstu mánuðum verða settir upp 10-15 þúsund örgjörvaposar hérlendis. Til að staðfesta með pinni þarf örgjörvakort en íslensk kreditkort eru öll orðin þeirrar gerðar. Útgáfa debetkorta með örgjörva er á fleygiferð og verður að mestu lokið á þessu ári.

  Verkefnið „Pinnið á minnið“ snýr fyrst um sinn að íslenskum fyrirtækjum sem þurfa að setja upp nýjan posa. Mikilvægt er að fyrirtækin hefjist þegar handa við að  undirbúa öruggari kortaviðskipti. Opnuð hefur verið sérstök vefsíða www.pinnid.is en þar er að finna upplýsingar um nauðsynleg skref fyrir öll fyrirtæki sem taka við kortagreiðslum. Á vefnum eru einnig leiðbeiningar fyrir starfsfólk og korthafana sjálfa.

  Continue reading →