Nánar um frétt

Breytingar í kortaviðskiptum og fatlaðir korthafar

Fjölmiðlar hafa að undanförnu fjallað um hvernig breytingar í kortaviðskiptum snúa að fötluðum. Af því tilefni er eftirfarandi tekið fram:

Vitað er að tilteknir hópar korthafa geta átt erfitt með að komast að posa á sölustað til að staðfesta kortagreiðslu og aðrir að muna eða slá inn pinnið sökum fötlunar eða af heilsufarsástæðum. Verkefnisstjórn Pinnið á minnið hefur átt í góðum samskiptum við Öryrkjabandalagið vegna þessara mála á undanförnum mánuðum og unnið úr þeim ábendingum sem þaðan hafa komið.

Útgefendur greiðslukorta munu á næstunni kynna sínar lausnir sem henta þessum hópum korthafa sérstaklega.

Enn um sinn er leyfilegt að staðfesta greiðslur með undirskrift þó svo að örgjörvi kortsins sé lesinn. Þegar fram í sækir verður almenna reglan sú að greiðslur með örgjörvakortum verða staðfestar með pinni og mun sú breyting verða kynnt rækilega þegar þar að kemur.

Á vegum verkefnisins Pinnið á minnið hefur verið brýnt fyrir stjórnendum fyrirtækja að uppfylla kröfur um aðgengi fyrir fatlaða á sölustað.

Hvað blinda og sjónskerta varðar þá uppfylla örgjörvaposar sem eru í notkun hérlendis alþjóðlega staðla og er talnaborð þeirra sambærilegt. Þannig er miðjuhnappurinn (talan 5) með upphleyptu merki til aðgreiningar og hnappar til að hafna eða staðfesta einnig með upphleyptum merkjum.

Rétt er að árétta eftirfarandi: Það er mikilvægt að korthafar láti pinnið sitt aldrei öðrum í té og geri það ekki aðgengilegt. Besta leiðin fyrir korthafa er að leggja pinnið á minnið og eiga það hvergi skráð í fórum sínum, og allra síst með greiðslukortinu. Ef korthafar geta af einhverjum ástæðum ekki lagt pinnið á minnið eru þeir hvattir til að hafa samband við sinn útgefanda, banka eða sparisjóð, og leita lausna.